|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Þorskaætt (Gadidae) Meðal fiska af þorskaætt eru mikilvægir nytjafiskar eins og Þorskur (Gadus morhua), ýsa (Melanogrammus aeglefinus) og ufsi (Pollachius virens), þessa fiska er alla að finna á safninu. Auk þess er þar að finna fiska eins og lýr (Pollachius pollachius) og keilubróðir (Ciliata mustela) sem tilheyra einnig sömu ætt en eru minna nytjaðir.
Steinbýtsætt (Anarhichdidae) Þrjár tegundir tilheyra þessari ætt og eru tvær tegundir til á safninu steinnbítur (Anarhichas lupus) og hlýri (Anarhicas minor). Steinbítur er meðal þeirra fiska sem sýna foreldraumhyggju. Þeir vernda hrogn sín gegn óvinum. Hrygnan hringar sig utan um hrognin þegar hún hefur hrygnt þeim. Steinbítur og hlýri eru bæði nýttir hér við land.
Karfaætt(Scorpaenidae) Karfar (Sebastes) eru einnig mikilvægir nytjafiskar. Við Ísland finnast einkum gullkarfi (Sebastes marinus), djúpkarfi (Sebastes mentella) og litli karfi (Sebastes viviparus) og er oftast átt við gullkarfa þegar talað er um karfa á íslensku. Á safninu er uppstoppaður djúpkarfi. Eitt af því sem greinir karfann frá öðrum beinfiskum er að hann eignast lifandi afkvæmi.
Flyðruætt (Pleuronectidae) Fiskar af þessari ætt eru flatir (flatfiskar). Hægri hliðin er dökk en sú vinstri ljós. Í NA-Atlantshafi þekkjast 9 tegundir jafn margra ættkvísla, en hér við land finnast 7 tegundir 7 ættkvísla. Ein tegund skarkoli (Pleuronectes platessa) er á safninu. Nokkuð er veitt af skarkola hér á landi en aðalveiðiþjóðirnar eru Danir, Hollendingar og Englendingar.
Hrognkelsaætt (Cyclopteridae) Hrognkelsi (Cyclopterus lumpus) hafa um langann aldur verið nýtt bæði grásleppa (kvk) og rauðmagi (kk). Rauðmaginn gætir hrognanna þegar grásleppan hefur gotið þeim á stein eða klett í þarabeltinu allt þar til seiðin klekjast út.
Laxaætt (Salmonidae) Á safninu finnast tvær tegundir af þessari ætt þ.e lax (Salmo salar) og silungur (sjóbleikja) (Salvelinus alpines). Laxinn sem er á safninu er annar þyngsti lax og sá þriðji lengsti sem fengist hefur við Ísland. Hann vóg 44 pund (22 kg) blóðgaður (45 pund óblóðgaður), er 120 cm á lengd og mesta ummál er 75 cm. Stærsti lax sem fengist hefur við Ísland er Grímseyjarlaxinn, 49 pund (blóðgaður) og 132 cm. Hann kom í nótina hjá loðnuskipinu BEITI NK frá Neskaupstað sem var á veiðum við Kolbeinsreyjarhrygg, 90 mílur NNA af Kolbeinsey og 150 mílur NNV af Langanesi í september 1986. Hann gæti því sem best heitið KOLBEINSEYJARLAX. Þrátt fyrir að laxinn hafi verið í loðnutorfu var ekki loðnu að finna í maga hans heldur var hann fullur af rauðátu. Hann var gefinn af skipverjunum á Beiti. |
|
|
|
|
|
|
|
|