|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Alls hafa 4 tegundir geitunga numið hér land. Þær eru: húsageitungur, holugeitungur, trjágeitungur og roðageitungur.
Húsageitungur (Paravespula germanica) Hann var fyrstur til að nema hér land en það var um 1973 í Reykjavík sem fyrst var vart við hann. Útbreiðsla hans er enn takmörkuð við höfuðborgarsvæðið og eru afar litlar líkur að hann nái að fóta sig utan þess landshluta. Hann staðsetur bú sín inni á húsþökum, á háaloftum eða í holrými á milli þilja.
Holugeitungur (Paravespula vulgaris) Fannst fyrst með bú hér 1977 á höfuðborgarsvæðinu og hefur enn ekki flust þaðan. Hann staðsetur búin á sömu stöðum og húsageitungur, þ.e. inni í húsum og í holum í jörðu. Einnig eru hraunhellur í blómabeðum afar vinsælar hjá holugeitungum.
Trjágeitungur (Dolicovespula norwegica) Fannst fyrst sumarið 1980 m.a í Neskaupstað. Hann er útbreiddur um allt land og er staða hans mjög traust í umhverfinu. Bú hans eru yfirleitt vel sýnileg og oft berskjölduð. Þau hanga gjarnan í trjám og runnum, undir þakskeggjum húsa og á gluggakörmum, á klettum og steinum, í börðum og þúfnakollum svo dæmi séu tekin.
Roðageitungur (Paravespula rufa) Hann mætti síðastur til leiks en það var um 1998 í Hafnarfirði. Hann er mjög sjaldgæfur og óvíst um frekari afdrif hans hér. Öll búin hafa fundist í holum í jörðu.
Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands má sjá meiri upplýsingar um geitunga.
|
|
|
|
|
|
|
|
|