|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Tvær rándýrategundir finnast hér af tveimur ættum. Tófa (Alopex Lagopus) Hundaætt (Canidae) Tófan eða melrakkinn er eina villta landspendýrið hér á landi. Hún hefur sennilega lifað hér síðan frá lokum ísaldar og hugsanlega mun lengur. Hún vegur um 2½-4½ kg og er þyngdin breytileg eftir kynjum og árstíma. Til eru tvö litarafbrigði af tófunni þær eru annaðhvor hvítar eða mórauðar allan ársins hring. Felldurinn á mórauðum dýrum verður nokkuð ljósari að vetri en sumri. Í Norður-Ameríku og Evrasíu eru nagdýr uppistaðan í fæðu tófunnar en á Íslandi eru fuglar helsta fæðan. Að vetri er rjúpan mikilvæg fæða inn til landsins og ýmsir farfuglar að sumri, ásamt eggjum þeirra og ungum. Við sjávarsíðuna er fæðuvalið mun fjölbreyttara og leitar hún í sjófugla þar á meðal bjargfugla og æðarfugla. Auk fugla étur hún töluvert magn hryggleysingja. Hræ stærri dýra eru einnig mikilvæg fæða sérstaklega á vetrna. Tófan ber mörg nöfn og eru helstu þeirra: Dýr, lágfóta, rebbi, refur, skolli, tóa, tæfa og vargur. Á safninu eru til sýnis bæði litarafbrigði tófunnar.
Minnkur (Mustela vison) marðarætt (Mustelidae) Minnkurinn var fluttur hingað til loðdýraræktar haustið 1931 og sluppu úr haldi fljótlega eftir það. Þegar leið á 5. áratuginn var hann búinn að ná fótfestu í íslenskri náttúru og lauk landnámi hans upp úr 1975 þá fannst minnkur í öllum landshlutum og í dag lifir hann í öllum landshlutum þar sem lífvænlegt er fyrir hann. Minnkurinn vegur frá 629-1179 gr og eru steggirnir þyngri og stærri en læðurnar. Minnkar hér eru yfirleitt dökkbrúnir að lit og oftast eru þeir með hvíta flekki á neðanverðum kjálka, á hálsi og milli framfóta eða aftast á kviðnum. Kjörlendi minnka eru annaðhvort við sjávarsíðuna eða við ár og vötn inn til landsins. Fæða minnka er nokkuð fjölbreytt en langmikilvægasta fæðan eru ýmsar tegundir fiska. Hluta fæðunnar tekur hann þó af þurrlendi og eru það bæði fuglar, einkum þó egg og ungar ýmissa fugla og hagamýs. Þeir éta þó einnig hryggleysingja.
|
|
|
|
|
|
|
|
|