|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Flækingsfuglar eru fuglar sem villst hafa af leið og eru því ekki innan sinna venjulegu heimkynna. Flækingsfuglar sjást á hverju ári á Íslandi. Flestir þessara fugla eru litlir spörfuglar. Mismikið ber á flækingsfuglum á milli ára og fer það eflaust mest eftir veðurfari á fartíma fuglanna. Alls er talið að um 250 tegundir flækinga hafi komið hingað til lands.
Hvenær koma þeir og hvaðan? Algengasti tíminn fyrir fugla til að villast af leið er á haustferðum þeirra, þegar ungviðið er sérstaklega gjarnt á að tína stefnunni. Mun meira er af fuglum á ferðinni eftir að varptíma er lokið og ungfuglar hafa bæst í hópi eldri fugla Venjulega eru flækingagöngur mestar um mánaðarmót september og október. Fuglar villast einnig á vorin og það eru að því er virðist ótakmarkaðar líkur á hvert þeir villast. Hvort flækingsfuglar sjást einkum á vorin, haustin eða á báðum árstímum fer mikið eftir tegundum. Algengustu flækingagöngur hingað eru frá Norðurlöndunum, þegar farfuglar eru á leið sinni til Bretlandseyja til vetrardvalar. Þeir hreppa þá djúpar lægðir á leiðinni. Margir þeirra eru óreyndir og þreklitlir ungfuglar og þess vegna ber meira á þessum flækingagöngum á haustin heldur en á vortíma. Svipað gerist hjá íslenskum og hánorrænum fuglum á suðurleið. Flækingsfuglar, sem berast til landsins, virðast einnig langflestir koma frá Evrópu. Samt sem áður hefur sést á Suð-Austurlandi þó nokkuð af fuglum frá Asíu og Norður-Ameríku.
Af hverju koma þeir? Farfuglar eru aðallega fuglar frá Norðurlöndum á leið suðvestur um haf til Bretlandseyja en hrekjast undan suðaustanátt og má meðal annars rekja upphaf staravarps í Reykjavík til þess. Einnig hrekjast fuglarnir oft undan vindi hingað í stórum stíl. Haftyrðill er dæmi um fugl sem í stórviðrum hrekst langt inn í land. Hann er þá langsoltinn, máttvana og dauðanum ofurseldur. Evrópskir flækingar sem lenda hér eru oft dauðans matur. Dæmi um reglulega flækinga hér á landi eru Kanadagæs Fjallafinkur, Tyrkjadúfur, Garðsöngvari, Rósafinka, hláturmáfur, Æðarkóngur. Hettusöngvari og margar fleiri. Einstaka fugl heldur til í skógum og görðum vetrarlangt, aðrir átta sig og fara aftur yfir Atlantshafið.
Dimmviðri og sterkar SA-áttir á haustin bera því iðulega einhverja evrópska flækinga til landsins. Amerískir flækingar eru mun sjaldséðari hér en evrópskir og er það er fyrst og fremst vegna þess að suð-austlægar áttir eru ríkjandi á fartímum. Þó kemur það stundum fyrir að leifar af fellibyljum koma upp með ströndum N-Ameríku og berast til Íslands og þá sjást stundum ýmsar afar sjaldgæfar tegundir. Sumar tegundir flækinga koma þó til Íslands í fylgd íslenskra fugla sem hafa dvalið erlendis. Þetta á t.d. við um endur en þá tæla kollurnar erlenda andasteggi með sér til landsins.
Þessir óreglubundnu gestir eru ekki einungis áhugaverðir fyrir það að vera sjaldgæfir. Þeir gefa okkur líka mikilvægar upplýsingar um þýðingu veðráttu fyrir farflugið og hæfni fuglanna til að rata rétta leið. Af þessum orsökum einbeita margir fuglafræðingar sér að þessu fyrirbrigði.
Byggt á bókunum Íslenskir fuglar eftir Ævar Petersen, Fuglar í náttúru Íslands eftir Guðmund Pál Ólafsson og Fuglar á Íslandi og öðrum eyjum í Norður Atlantshafi eftir SØren SØrensen og Dorete Bloch.
|
|
|
|
|
|
|
|
|